Fögnum 1. Maí!
Þín réttindi skipta máli!
VIÐ SENDUM FÉLAGSMÖNNUM OKKAR GÓÐAR KVEÐJUR Í TILEFNI VERKALÝÐSDAGSINS
Við hvetjum félagsmenn til þess að fjölmenna á kröfugöngu og taka þátt í hátíðardagskrá 1. maí!

Dagskrá á Akureyri
Kröfuganga sunnudaginn 1. maí
13:30 – Göngufólk safnast saman við Alþýðuhúsið
14:00 – Lagt af stað við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar
Hátíðardagskrá í Hofi að lokinni kröfugöngu
- Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna – Finnur Víkingsson, formaður Rafiðnaðarfélags Norðurlands
- Hátíðarræða – Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ
- Kaffiveitingar að dagskrá lokinni
Vilhjálmur Bragason stýrir dagskránni. Söngur og gleði með góðum gestum úr Hárinu ásamt Ívari Helgasyni.
Dagskrá í Fjallabyggð
- Boðið verður upp á létta dagskrá í sal félaganna að Eyrargötu 24b Siglufirði Sunnudaginn 1. maí á milli kl. 14:30 og 17:00
- Ávarp frá 1. maí nefnd stéttarfélaganna
- Kaffiveitingar

Höfum áhrif og berjumst fyrir auknum réttindum á vinnumarkaði

Ég þakka fyrir þau lífsgæði sem kjarabarátta hefur skilað fólkinu í landinu!
Ég fagna því að tilheyra stéttarfélagi sem stendur vörð um minn rétt!

Ég þakka fyrir að eiga rétt á orlofi, veikindarétti og uppsagna-frest!


Yfirskrift 1. Maí er Við vinnum!
Vinnandi fólk skapar verðmæti samfélagsins og heldur hjólum atvinnulífsins gangandi. Aldrei varð þetta skýrara en í gegnum heilan heimsfaraldur þar sem launafólk stóð vaktina og hélt öllu samfélaginu gangandi. Í lok dags var það svo að mörg fyrirtæki gátu vel við unað í gegnum slíkt ófremdarástand sem faraldurinn var. Áður óséðar arðgreiðslur runnu óskiptar í vasa eigenda og kauphallir sprungu út. Þetta góðæri fjármagnseigenda var borið uppi á bökum vinnandi fólks.
Reyndin er samt sú að enn búa hópar launafólks við kröpp kjör og ófullnægjandi laun þrátt fyrir að vinna fullan vinnudag. Þessir hópar eiga erfiðast uppdráttar á stökkbreyttum fasteignamarkaði. Þessir hópar fá minnstan stuðning stjórnvalda. En þau eru líka við. Og við stöndum saman og við vinnum.
Með samstöðu getum við náð fram brýnum kjarabótum fyrir þau okkar sem helst þurfa. Við höfum unnið marga sigra í gegnum tíðina og munum vinna marga fleiri. Í haust losna kjarasamningar á almennum markaði og þá stöndum við saman til að vinna okkar málefnum brautargengi.
Við erum fólkið sem skapar verðmætin með vinnu okkar. Við erum fólkið sem heldur samfélaginu gangandi, sama hvað á bjátar. Við erum launafólk í einu ríkasta landi heims. Við erum sterk hreyfing sem vinnur sigra.
Við vinnum!